Skýrslan: Ítarlegar niðurstöður

Í skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ vegna viðbragða og málsmeðferðar KSÍ gagnvart ofbeldismálum, sem er rúmar 100 blaðsíður, eru m.a. dregnar saman mjög ítarlegar niðurstöður.

Skýrsla úttektarnefndarinnar

Þær má sjá hér í heild sinni:

3.6.1. Vitneskja innan stjórnar og meðal starfsmanna KSÍ um frásagnir af kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi

Eins og rakið er í kafla 1.1. hér að framan er eitt af meginverkefnum úttektarnefndarinnar að staðreyna eins og kostur er hvaða vitneskja hafi verið innan stjórnar og/eða meðal starfsmanna KSÍ um að leikmenn landsliða eða aðrir sem starfa fyrir KSÍ hafi beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi á árunum 2010–2021.

Vitneskja Guðna og Klöru um frásögn

Í samræmi við þær upplýsingar sem úttektarnefndin hefur aflað og raktar eru í kafla 3 hér að framan telur úttektarnefndin ljóst að bæði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, og Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri, hafi 3. júní 2021 haft vitneskju um að frásögn Z um alvarlegt kynferðisofbeldi, sem birtist í opinni færslu á Instagram tæplega mánuði áður, tengdist C og D, leikmönnum í A-landsliði Íslands hjá KSÍ.

Þá er ljóst að Y, tengdamóðir Z, ræddi málið ítrekað við þau sama sumar og hafði milligöngu um boð frá tengdadóttur sinni sem Guðni Bergsson bar síðan undir C. Þá er jafnframt ljóst að Y ræddi málið við einstaka samstarfsmenn innan KSÍ í trúnaði.

Úttektarnefndin telur hins vegar ekki unnt að slá því föstu að stjórnarfólk í KSÍ hafi haft vitneskju um að Y hafi greint Guðna, Klöru eða einstökum starfsmönnum frá þessari frásögn tengdadóttur sinnar fyrr en á stjórnarfundi 28. ágúst 2021, eftir að Y hafði rætt málið ítrekað og Guðni auk þess rætt við C um málið.

Þrátt fyrir að Borghildur Sigurðardóttir, annar varaformanna KSÍ, hafi lýst því fyrir nefndinni að hún hafi áttað sig á tengslum Y við Z í upphafi ágúst 2021 og upplýst Klöru um þau verður ekkert ráðið af athugun nefndarinnar um að henni hafi verið kunnugt um að Y hefði rætt málið innan KSÍ. Sama gildir um annað stjórnarfólk KSÍ.

Nefndin telur engu að síður rétt að geta þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin hefur fengið var brugðist skjótt við því máli af hálfu KSÍ. Þá varðar málið hvorki leikmann landsliða Íslands né neinn af föstum starfsmönnum sambandsins.

Ekki verður heldur ráðið að Instagram-færsla Z hafi verið tengd við tiltekna leikmenn A-landsliðsins á vettvangi stjórnar fyrr en á óformlegum Teams-fundi stjórnar 20. ágúst 2021.

Stjórnarfólki ókunnugt um tengslin og frásögn af kæru

Að því er varðar ábendingar Guðna Bergssonar um að stjórn hafi átt að vera þessi tengsl ljós þar sem umræða um málið tengt færslu Z hafi verið víða í samfélaginu, þá telur úttektarnefndin ekki unnt að horfa framhjá því að tölvupóstsamskipti í stjórn mánudaginn 16. ágúst 2021 gefa eindregið til kynna að stjórnarfólki hafi verið ókunnugt um þetta.

Þannig spurðist stjórnarmaðurinn Ingi Sigurðsson sérstaklega fyrir um það í tölvupósti til stjórnar þennan dag hvaða upplýsingar lægju fyrir hjá KSÍ varðandi það sem getið er um í pistli Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur frá 13. ágúst 2021.

Í tölvupósti Guðna Bergssonar sem sendur var hálfri annarri klukkustund síðar svaraði Guðni á þann veg að „engin mál“ keppnisfólks KSÍ hefðu borist sambandinu „formlega eða verið á okkar borði síðan [hann] tók við sem formaður“.

Þá telur úttektarnefndin jafnframt ljóst að stjórnarfólki hafi verið ókunnugt um að Guðna, Klöru og öðru starfsfólki KSÍ hafði í mars 2018 borist frásögn föður Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur um að hún hefði kært C til lögreglu fyrir líkamsárás og kynferðislega áreitni.

Að því er varðar frásögn um að lögregla hafi verið kölluð að dvalarstað A, leikmanns A-landsliðs karla, 5. júlí 2016 telur úttektarnefndin liggja fyrir að þáverandi formaður, Geir Þorsteinsson, sem og Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri, og annað starfsfólk KSÍ fékk upplýsingar um að lögregla hafi verið kvödd til að dvalarstað landsliðsmannsins.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úttektarnefndin hefur fengið hefur nefndin þó ekki getað sannreynt að starfs- eða stjórnarfólk KSÍ hafi á tímabilinu 5. júlí 2016 til 22. september 2021, þegar þessi nefnd hóf störf, fengið upplýsingar frá eiginkonu A, einhverjum sem henni tengist eða öðrum sem varð beint vitni að því að hún hafi sætt heimilisofbeldi umrætt kvöld.

Hefur nefndin þá m.a. litið til þess að nágranninn X sem hafði á sínum tíma samband við KSÍ hefur ekki getað sagt nefndinni deili á því hvaða starfsmann hann ræddi við, en samtali hans við starfsmanninn var lýst með talsvert öðrum hætti gagnvart nefndinni en því samtali sem fyrrverandi starfsmaður KSÍ, Gunnar Gylfason, átti við ótilgreindan einstakling og lýsti fyrir nefndinni.

Þegar frá eru talin ofangreind mál er það ályktun úttektarnefndarinnar að starfsfólk og stjórn KSÍ hafi frá ársbyrjun 2010 til 22. september 2021 haft vitneskju um tvö önnur mál þar sem þeim var gert viðvart um frásagnir af kynferðisbrotum einstaklinga sem komu fram á vegum KSÍ. Þau mál eru rakin í kafla 3.5. hér að framan.

Um nauðgunar- og þöggunarmenningu

3.6.2. Um það hvort nauðgunar- og þöggunarmenning sé til staðar innan KSÍ

Úttektarnefndinni hefur einnig verið falið það verkefni að skoða ásakanir sem fram hafa komið um m.a. svokallaða „nauðgunar- og þöggunarmenningu“ innan sambandsins.

Við afmörkun á því hvað fellur undir starfssvið nefndarinnar að þessu leyti telur nefndin óhjákvæmilegt að hafa í huga að framangreind hugtök eru í eðli sínu nokkuð rúmt skilgreind af fræðimönnum og engri lagalegri skilgreiningu er til að dreifa.

Eins og rakið er í kafla 1.2. hér að framan hefur nauðgunarmenningu í senn verið lýst sem flóknu samspili hugmynda sem ýtir undir kynferðislegan yfirgang karla og viðheldur ofbeldi gegn konum, sem og menningu „sem ýtir undir og viðheldur kynferðislegu ofbeldi gegn konum og samþykkir það ofbeldi og ótta kvenna við ofbeldið sem norm“.

Úttektarnefndin telur ljóst að í samfélagi þar sem kynferðisofbeldi er jafnalgengt og hér á landi verði varla hjá því komist að álykta að einhvers konar nauðgunar- eða þöggunarmenning í þeim rúma skilningi sem að framan er rakinn sé til staðar í fjölmörgum stofnunum, fyrirtækjum og samtökum og samfélaginu öllu.

Þegar orðin „nauðgunar- og þöggunarmenning“ eru sett í samhengi við þær ásakanir og gagnrýni sem komið hafa fram á hendur KSÍ í opinberri umræðu telur nefndin rétt að skilgreina hlutverk sitt að þessu leyti þannig að það taki fyrst og fremst til þess að athuga hvernig KSÍ brást annars vegar við tilkynningum og frásögnum um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og hins vegar þeirri gagnrýni sem kom opinberlega fram um hvernig KSÍ tæki á þessum málum.

Við mat á viðbrögðum KSÍ að þessu leyti telur nefndin jafnframt nauðsynlegt að líta til stöðu leikmanna gagnvart KSÍ sem og að hafa hliðsjón af þeim lögum og reglum sem gilda um meðferð tilkynninga með upplýsingum um að einstaklingur sé grunaður eða kærður vegna refsiverðrar háttsemi.

Í því sambandi hefur nefndin einkum horft til þeirra sanngirnis-, gagnsæis- og áreiðanleikareglna sem settar eru fram í núgildandi persónuverndarlögum og áður voru í eldri persónuverndarlögum og reglum stjórnarskrár sem lýst er í kafla 2 hér að framan.

Vitneskja um að lögregla hefði verið kölluð til

Ef litið er fyrst til frásagnar um þann leikmann A-landsliðs karla sem auðkenndur er sem A í þessari skýrslu, sbr. kafla 3.2., þá telur nefndin liggja fyrir að þáverandi formaður KSÍ, framkvæmdastjóri, meðlimur landsliðsnefndar og starfsmaður KSÍ höfðu vitneskju um að lögreglan hefði verið kölluð að dvalarstað leikmannsins í júlí 2016 vegna tilkynninga um ólæti og grun um heimilisofbeldi.

Að sama skapi er ljóst að leikmaðurinn var ekki í verkefni á vegum KSÍ og þannig ekki á vinnustað sambandsins þegar atburðurinn átti sér stað. Einstaklingur sem sat í landsliðsnefnd A-landsliðsins og hitti A og eiginkonu hans daginn eftir hefur auk þess í samskiptum við nefndina lýst því að hann hafi ekki fengið neinar upplýsingar á þeim fundi eða séð neitt sem benti til þess að heimilisofbeldi hefði átt sér stað. Eftir því sem úttektarnefndin kemst næst var heldur engin kæra lögð fram vegna málsins.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og með vísan til þeirra laga og reglna sem giltu við meðferð upplýsinga um grun um ofbeldi og refsiverða háttsemi og raktar eru í kafla 2 hér að framan verður ekki séð að KSÍ hafi haft rúmt svigrúm til að fjalla frekar á vettvangi sambandsins um þær upplýsingar sem KSÍ fékk um útkall lögreglu að dvalarstað A, þótt landsliðsþjálfari hefði vissulega ávallt svigrúm til að velja A ekki í landsliðsverkefni.

Þá hefur nefndin ekki getað staðreynt að starfs- eða stjórnarfólk KSÍ, eða aðrir á vegum sambandsins, hafi heyrt eða fengið með öðrum hætti vitneskju um frásagnir af því að A hafi beitt eiginkonu sína refsiverðu ofbeldi.

Vildi formaðurinn hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla?

Hvað sem því líður telur nefndin engu að síður athugunarvert að þáverandi formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson, hafi rætt við almannatengil vegna málsins, einkum þegar horft er til þeirra skýringa hans til nefndarinnar að málið hafi aldrei verið „formlega á borði KSÍ og um einkalíf leikmannsins var að ræða“ og að það tengdist ekki verkefni á vegum KSÍ.

Telur nefndin að í ljósi þeirrar afstöðu þáverandi formanns að málið tengdist hvorki né væri til umfjöllunar hjá KSÍ hafi sú ráðstöfun að ræða málið við almannatengil, sem síðan fékk greitt fyrir þá vinnu sína, bent til þess að formaður KSÍ vildi hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla um málið.

Þessi viðbrögð formanns KSÍ við máli sem hann sjálfur taldi vera einkamál leikmannsins og utan verkefna KSÍ hafa að mati nefndarinnar einkenni þöggunarmenningar.

Í samræmi við yfirlýsingu stjórnar KSÍ frá 29. ágúst 2021 um aukinn stuðning og samstöðu með þolendum telur úttektarnefndin að framvegis fari betur á því að KSÍ bjóði maka leikmanns og leikmanni hvoru um sig aðstoð fagaðila ef sambandinu berst ábending um hugsanlegt ofbeldi.

KSÍ brást strax við vegna kæru um ofbeldi

Að því er varðar mál B sem rakið er í kafla 3.3. hér að framan þá fær úttektarnefndin ekki betur séð en að KSÍ hafi brugðist þegar í stað við um leið og sambandið fékk vitneskju um  að leikmaðurinn væri til rannsóknar hjá lögreglu vegna kæru um ofbeldi og áreitni gagnvart konu á skemmtistað haustið 2017.

Fyrir liggur að frásögnin var í beinu framhaldi borin undir leikmanninn og í kjölfarið tekin sú ákvörðun að hann skyldi sendur heim úr ferð landsliðsins og færi til Íslands í skýrslutöku hjá lögreglu.

Af tölvupóstsamskiptum sem nefndin hefur undir höndum er jafnframt ljóst að Guðni Bergsson var sem formaður KSÍ í samskiptum við lögreglu um að leikmaðurinn kæmi þangað til skýrslutöku.

Þá hefur úttektarnefndin engin gögn fundið eða aðrar vísbendingar fengið sem gefa til kynna að KSÍ hafi boðið kæranda í málinu þagnarskyldusamninga eða komið með öðrum hætti að slíkum tilboðum.

Samkvæmt því sem að framan er rakið telur nefndin sig ekki hafa neinar forsendur til að álykta að KSÍ hafi með einum eða öðrum hætti reynt að aftra því að mál B kæmi til meðferðar hjá lögreglu eða latt kæranda frá því að leita réttar síns í málinu.

Upplýsingar um kynferðisofbeldi bárust 3. júní

Hvað snertir frásögn Z á samfélagsmiðlinum Instagram um kynferðisofbeldi af hálfu tveggja manna sem birtist 9. maí 2021 telur úttektarnefndin sýnt að Guðni og Klara hafi, ásamt Arnari Þór Viðarssyni, þjálfara A-landsliðsins, 3. júní 2021 fengið upplýsingar í gegnum Y, starfsmann KSÍ og tengdamóður Z, að mennirnir í frásögninni væru C og D, leikmenn A-landsliðs karla í knattspyrnu.

Úttektarnefndin telur jafnframt liggja fyrir að Guðni og Y hafi rætt málið ítrekað og að Guðni hafi einnig rætt málið við C, annan leikmannanna.

Þá fær nefndin ekki ráðið af viðtölum sem hún tók við Y, Guðna og Klöru að Z hafi haft í hyggju að kæra C og D eða ræða málið frekar í fjölmiðlum á þeim tíma. Þá hafi það heldur ekki verið ósk Z að C hætti að spila fyrir landsliðið.

Ráðvillt um hvernig taka ætti á málinu

Af viðtölum við Y og annað starfsfólk KSÍ verður ráðið að Guðni og Klara hafi verið ráðvillt um hvernig taka ætti á málinu. Í því sambandi má þó að nokkru leyti taka undir þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá þeim báðum að erfitt hafi reynst að taka á málinu þar sem óljóst var hvaða væntingar Z hafði um viðbrögð KSÍ til málsins.

Þá ber starfsfólki og öðrum sem komu að málinu sem ráðgjafar almennt saman um að Guðni hafi ekki meðvitað verið að þagga málið niður, en málið hafi vissulega meira verið á hans hendi en Klöru.

Eins og rakið er í kafla 3.4. ber Y og Guðna ekki saman um hvort hugmyndin að því að ræða sættir í málinu hafi komið frá Guðna. Hvað sem því líður og hverjar sem hugmyndir þáverandi formanns voru í samtölum hans við Y telur nefndin engu að síður óheppilegt að Y hafi sem almennur starfsmaður KSÍ verið sett í þá stöðu að hafa milligöngu um boð til og frá tengdadóttur sinni sem greint hafði frá ofbeldi af hálfu leikmanna landsliðsins til KSÍ og formanns.

Lýsti ítrekað yfir að engar tilkynningar hefðu borist

Þannig telur nefndin að formanni hafi átt að vera ljóst að staða Y gat að þessu leyti verið til þess fallin að vekja hjá henni ótta um starfsöryggi sitt. Slíkt gat enn fremur skapað þrýsting á Z og Y að halda málinu í þagnargildi og fara ekki með það lengra, jafnvel þótt formaður og framkvæmdastjóri hefðu á engan hátt ætlað sér það og sjálf ekki litið svo á að Y hefði ástæðu til að óttast um starf sitt.

Þegar tekin er afstaða til þess hvernig KSÍ brást við opinberum ásökunum um hvernig tekið væri á tilkynningum eða ábendingum um kynferðisofbeldi og annars konar ofbeldi á vettvangi sambandsins verður ekki hjá því komist að benda á það að Guðni Bergsson lét sem formaður sambandsins ítrekað frá sér yfirlýsingar um að KSÍ hefði ekki fengið neinar tilkynningar eða ábendingar af þessum toga inn á sitt borð síðan hann tók við formennsku.

Í því sambandi má vísa til ummæla Guðna í Fréttablaðinu 25. ágúst og í Kastljósi RÚV daginn eftir sem rakin eru í kafla 3.4. hér að framan.

Samskiptastjóri lagði til annað

Þá var með vitund Guðna send yfirlýsing í nafni samskiptastjóra KSÍ 20. ágúst 2021 um að „kvartanir um meint brot einstakra leikmanna [hefðu] ekki borist inn á borð KSÍ“ og „að skýrir verkferlar lægju fyrir um slíkar kvartanir sem bárust“.

Þessi yfirlýsing var send þrátt fyrir að samskiptastjóri hefði lagt fram tillögu um að send yrði yfirlýsing sem væri í samræmi við þá vitneskju sem KSÍ hafði þá undir höndum.

Ljóst er að þessar yfirlýsingar sem formaður gaf í nafni KSÍ til fjölmiðla og almennings voru villandi, enda var formaður KSÍ á sama tíma með á borði sínu tilkynningu Y um ofbeldi gagnvart tengdadóttur sinni, auk þess sem formaðurinn var á sama tíma í samskiptum við leikmann landsliðsins vegna málsins.

Þá samræmdust þessar yfirlýsingar ekki heldur því að KSÍ hafði rúmlega þremur árum áður fengið í sínar hendur tilkynningu um kæru á hendur leikmanni vegna ofbeldis sem varð til þess að hann var sendur heim úr æfingaferð landsliðsins.

Auk þess telur nefndin að fullyrðing, sem birtist í tilkynningu frá KSÍ 17. ágúst 2021, um að tryggt væri þegar mál sem tengdust ofbeldi (m.a. kynferðisofbeldi) færu í viðeigandi ferli ef þau kæmu inn á borð sambandsins og að ávallt væri hvatt til aðkomu lögregluyfirvalda þegar grunur væri um lögbrot hafi ekki heldur gefið rétta mynd af meðferð þessara mála innan KSÍ.

Verður í því samhengi að benda á að ekki verður séð að formaður eða nokkur annar fyrir hönd KSÍ hafi hvatt Y eða Z til að leita til lögreglu vegna málsins sem frásögn Z laut að.

Forvarnar- og viðbragðsáætlun ekki tilbúin

Þá er rétt að benda á að forvarnar- og viðbragðsáætlun sem tæki á kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni og átti samkvæmt jafnréttisáætlun KSÍ að vera tilbúin 15. apríl 2021 var það ekki.

Úttektarnefndin telur að framangreindar yfirlýsingar sem fram komu fyrir hönd sambandsins í máli formanns og í opinberum tilkynningum hafi verið til þess fallnar að gera lítið úr málum þeirra kvenna sem greint höfðu frá ofbeldi í sinn garð.

Í því sambandi tekur nefndin fram að enda þótt gæta hafi þurft trúnaðar við konurnar og einnig gagnvart þeim leikmönnum sem frásagnirnar beindust að jafngildir sá trúnaður ekki því að KSÍ hafi opinberlega þurft að neita fyrir tilvist slíkra mála.

Að mati nefndarinnar má til sanns vegar færa að yfirlýsingarnar hafi borið með sér ákveðin merki þöggunar- og nauðgunarmenningar, þar sem því var í reynd hafnað í yfirlýsingunum að mál kvennanna hefðu komið til vitundar KSÍ.

Að því leyti endurspegluðu þessar yfirlýsingar fyrir hönd KSÍ ekki að frásagnir kvennanna væru í reynd teknar alvarlega. Við mat á því hvort meðferð þessa máls sé merki um þöggunar- og nauðgunarmenningu innan KSÍ sem samtaka verður ekki hjá því litið að þáverandi formaður KSÍ veitti stjórn KSÍ villandi upplýsingar um stöðu mála þegar stjórnarmaður spurðist sérstaklega fyrir um það í tölvupósti til formanns, með afriti á stjórn, hvaða upplýsingar lægju fyrir hjá KSÍ um ofbeldismál í tilefni af skoðanapistli Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur sem birtist 13. ágúst 2021.

Ekki einkenni þöggunar- eða nauðgunarmenningar

Þeirri fyrirspurn svaraði formaðurinn með tölvupósti til stjórnar á þann veg að að engin mál keppnisfólks KSÍ hefðu borist formlega „eða verið á borði“ sambandsins síðan hann tók við sem formaður.

Í ljósi þessa telur nefndin ekki hægt að fullyrða að framganga stjórnar, framkvæmdastjóra eða annarra starfsmanna í tengslum við þessar yfirlýsingar beri einkenni þöggunar- og nauðgunarmenningar.

Í þessu samhengi verður jafnframt að benda á að gögnin sem nefndin hefur undir höndum og viðtöl nefndarinnar við starfs- og stjórnarfólk sem og aðra sem komu að málinu bera vott um að bæði stjórnarfólk og framkvæmdastjóri sambandsins hafi á fundum og í tölvupóstum harðlega gagnrýnt yfirlýsingar formannsins í fjölmiðlum, auk þess sem samskiptastjóri KSÍ gerði tillögu um að efni yfirlýsingar yrði annað en það sem á endanum birtist.

Ef frá eru taldar ofangreindar yfirlýsingar formanns og KSÍ í fjölmiðlum og til stjórnar í tengslum við mál leikmannanna B, C og D fær úttektarnefndin ekki séð að meðferð frásagna um ofbeldi innan KSÍ beri merki nauðgunar- og þöggunarmenningar umfram það sem almennt gerist í samfélaginu.

Þannig hefur nefndin ekki ráðið annað af þeim málum sem hún hefur fengið vitneskju um í athugun sinni en að KSÍ hafi sem samtök að jafnaði brugðist greiðlega við í kjölfar þeirra ábendinga sem sambandinu hafa borist um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og gert viðeigandi ráðstafanir í framhaldinu eftir atvikum málsins hverju sinni.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin hefur undir höndum hafa einstaklingar sem þiggja greiðslur af KSÍ ekki sinnt áfram verkefnum á vegum sambandsins eftir að KSÍ hafa borist ábendingar um kynferðisbrot þeirra eða á meðan mál þeirra eru til meðferðar í refsivörslukerfinu.

Þá liggur fyrir að leikmaðurinn B var sendur úr landsliðsverkefni beint í kjölfar þess að ábending barst um að lögregla hefði til meðferðar kæru á hendur honum árið 2018.

(Fyrirsagnir eru frá mbl.is)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert