„SOS Arnar er brjálaður“

Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson funduðu með stjórnarmeðlimum …
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson funduðu með stjórnarmeðlimum KSÍ eftir að Kolbeini Sigþórssyni var meinað að taka þátt í verkefnum landsliðsins í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var allt annað en sáttur með þá ákvörðun stjórnar KSÍ að meina Kolbeini Sigþórssyni að taka þátt í landsliðsverkefnum Íslands í september síðastliðnum.

Þetta kom fram í skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ sem var opinberuð í höfuðstöðvum ÍSÍ í Laugardal í gær.

Kolbeinn var tekinn úr landsliðshópnum sem átti að mæta Rúmeníu, Norður-Makedíníu og Þýskalandi dagana 2.-8. september eftir að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram og sakaði landsliðsmanninn um að hafa beitt sig ofbeldi í lok ágúst en atvikið átti sér stað á skemmtistað í Reykjavík sumarið 2017.

„Af tölvupóstsamskiptum stjórnarfólks þennan dag má ráða að Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla, var ekki alls kostar sáttur með að stjórn hefði tilkynnt að B væri útilokaður frá landsliðinu í komandi leikjum,“ segir í skýrslu nefndarinnar.

„ Þennan dag var sendur innan stjórnarhópsins tölvupóstur með efnisheitinu „SOS Arnar er brjálaður við þurfum að aðstoða hann“. Í þeim samskiptum kemur m.a. fram að varaformenn KSÍ, Borghildur Sigurðardóttir og Gísli Gíslason, hafi síðar um kvöldið átt fund með Arnari Þór og Eiði Smára Guðjohnsen, aðstoðarþjálfara 80 A-landsliðsins, þar sem gleymst hafi „að fara yfir næstu skref með landsliðsþjálfurunum og hvernig [eigi] að tækla framhaldið með landsliðið,“ segir ennfremur í skýrslunni.

Kolbeinn, sem er 31 árs gamall, er markahæsti leikmaður í sögu karlalandsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen en hann lék síðast með landsliðinu í sumar í vináttulandsleik gegn Færeyjum í Þórshöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert