Ísland er áfram með sextánda besta kvennalandslið í heimi samkvæmt nýjum styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, sem var gefinn út í dag.
Íslenska liðið var líka í sextánda sæti þegar listinn var síðast gefinn út þann 20. ágúst, þannig að fjórir sigurleikir, m.a. gegn Japan sem er í 13. sæti, ásamt ósigri gegn Hollandi, dugðu ekki til að komast ofar. Munurinn í stigum hefur þó minnkað og litlu munar á Íslandi og Ítalíu, sem er í fimmtánda sætinu, sem og Danmörku og Japan sem eru í næstu sætum þar fyrir ofan.
Staða þriggja bestu liða heims er óbreytt en þar eru Bandaríkin, Svíþjóð og Þýskaland í þremur efstu sætum listans. Frakkland fer uppfyrir Holland og í fjórða sætið en síðan koma Kanada, Brasilía, England, Spánn, Norður-Kórea, Ástralía og Noregur í tólfta sætinu.
Frakkland og Ítalía eru tveir af mótherjum Íslands í lokakeppni EM á Englandi næsta sumar, ásamt liði Belgíu sem er í 20. sæti listans.
Ísland er samkvæmt listanum með tíunda sterkasta landslið Evrópu en næstu lönd á eftir íslenska liðinu eru Sviss, Suður-Kórea, Kína, Belgía, Austurríki, Nýja-Sjáland, Skotland, Tékkland og Rússland.