Knattspyrnumaðurinn Halldór Jón Sigurður Þórðarson er genginn til liðs við Eyjamenn og hefur samið við þá til þriggja ára en hann hefur leikið með Víkingi í Reykjavík undanfarin þrjú ár.
Halldór er 25 ára gamall, kantmaður eða bakvörður, en hann spilaði 11 leiki með Íslandsmeisturum Víkings á þessu ári og á samtals 26 leiki að baki með þeim í úrvalsdeildinni þar sem hann hefur skorað eitt mark.
Þá á Halldór að baki 55 leiki og fimm mörk í 1. og 2. deild með Gróttu, ÍR, Aftureldingu, Hetti og Fram, en hann lék með Frömurum í yngri flokkunum.
ÍBV, sem er nýliði í úrvalsdeildinni á komandi tímabili, hefur áður fengið Alex Frey Hilmarsson til liðs við sig frá KR og þá er Andri Rúnar Bjarnason leikmaður Esbjerg í Danmörku sterklega orðaður við liðiði.