Gamla ljósmyndin: Leikið í snjó

Morgunblaðið/Friðþjófur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Breiðablik lék í vikunni síðasta heimaleikinn í Meistaradeild Evrópu á Kópavogsvelli þegar liðið tók á móti Real Madríd í snjókomu. Um leið var þetta síðasti mótsleikur ársins í knattspyrnunni hérlendis enda komið fram í desember. Aldrei áður hefur mótsleikur í knattspyrnu utanhúss farið fram svona seint á Íslandi eins og bent var á í Morgunblaðinu á fimmtudaginn en metið var þó einungis bætt um einn dag. 

Ef íslensk knattspyrnulið „lenda“ í því að ná árangri í Evrópukeppnum þá getur komið upp sú staða að leikið sé inn í veturinn. 

Árið 1985 komst karlalið Fram í 2. umferð í Evrópukeppni bikarhafa með því að slá Glentoran frá Norður-Írlandi út í fyrstu umferð. Þá var gamla fyrirkomulagið í Evrópukeppnunum í notkun. Hrein útsláttarkeppni eins og í bikarkeppnum og þrjár keppnir í gangi: Evrópukeppni meistaraliða, Evrópukeppni bikarhafa og UEFA-bikarinn. 

Fram dróst á móti Rapid Vín frá Austurríki í 2. umferð og náði frábærum úrslitum á heimavelli en Fram vann þá atvinnumannaliðið 2:1. Austurríkismennirnir unnu leikinn ytra 3:0 og komust því áfram samanlagt. Kristinn R. Jónsson og Guðmundur Torfason (víti) skoruðu mörk Fram í leiknum. Sigurinn markaði viss tímamót því aldrei áður hafði íslenskt félagslið unnið meira en einn Evrópuleik á sama keppnistímabilinu.

Fleiri merkileg úrslit urðu þetta haustið hjá íslensku liðunum því Valur vann franska liðið Nantes 2:1 á Laugardalsvellinum í 1. umferð UEFA-bikarsins. 

Á meðfylgjandi mynd úr heimaleiknum má sjá að Fram og Rapid Vín léku í snjó á Laugardalsvellinum. Eru menn vel búnir í sokkabuxum og með fingravettlinga. Í umfjöllun um leikinn í Morgunblaðinu lét Skúli Unnar Sveinsson þess einnig getið að leikmenn hefðu leikið í gervigrasskóm. Leikurinn var þó mun fyrr á ferðinni en leikur Breiðabliks og Real Madríd nú því Fram tók á móti Rapid Vín hinn 6. nóvember 1985. 

Á myndinni má sjá Örn Valdimarsson renna sér í snjónum og tækla leikmann Rapid Vín og Viðar Þorkelsson (5) er við öllu búinn. Myndina tók Friðþjófur Helgason sem myndaði leikinn fyrir Morgunblaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert