Treysta á að veðrið verði hagstætt

Akureyrarvöllur hefur oft verið slæmur á vorin og jafnvel á …
Akureyrarvöllur hefur oft verið slæmur á vorin og jafnvel á sumrin að undanförnu. KA getur tæplega leikið á honum í apríl og október. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Keppnistímabilið í íslenska fótboltanum lengist um 45 daga, hálfa sjöundu viku, ef breytingar sem lagðar verða til á ársþingi KSÍ í febrúar verða samþykktar.

Þá verður leikjum í úrvalsdeild karla fjölgað úr 132 í 162 og leikið frá 18. apríl til 29. október, í stað 30. apríl til 25. september eins og gert var á þessu ári.

Lenging tímabilsins hefur lengi verið baráttu- og áhugamál þeirra sem vilja sjá íslenska fótboltann vaxa og dafna og standast sívaxandi kröfur á alþjóðavettvangi. Íslenska tímabilið er það stysta í Evrópu.

En stærsta áhyggjuefnið við lengingu tímabilsins er án efa ástand íslensku grasvallanna og hvort þeir þoli það álag að keppni hefjist upp úr miðjum apríl og ljúki ekki fyrr en í lok október. Grasvellirnir í deildinni eru ekki með hitalagnir, eins og t.d. Kópavogsvöllurinn var með áður en hann var lagður gervigrasi.

Þá fjölgar grasvöllunum í deildinni á milli ára. Á þessu ári fór meirihluti leikjanna fram á gervigrasi, sex lið voru með gras og sex með gervigras, en KA þurfti að spila hluta sinna heimaleikja á gervigrasvellinum á Dalvík.

Nú er hinsvegar ÍBV komið í deildina á ný með gras á Hásteinsvelli, sem verður reyndar fjarlægt eftir tímabilið 2022, á meðan gervigrasliðin HK og Fylkir féllu úr deildinni. Þar með eru sjö graslið en fimm gervigraslið í deildinni 2022.

Morgunblaðið ræddi við fimm vallarstjóra grasvalla, einn framkvæmdastjóra og einn formann, til að fá stöðuna og sjónarmiðin hjá þeim sjö félögum þar sem leikið verður á grasi keppnistímabilið 2022.

Samnefnarinn í þeirra máli er sá að um gríðarlega áskorun verði að ræða að vera með grasvellina í nothæfu ástandi í apríl og október, og þar þurfi fyrst og fremst að treysta á hagstæða veðráttu.

Viðtölin við fulltrúa grasliðanna sjö má sjá í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert