ÍBV staðfestir komu Andra

Andri Rúnar Bjarnason í leik með Grindavík árið 2017.
Andri Rúnar Bjarnason í leik með Grindavík árið 2017. Ljósmynd/Víkurfréttir

Andri Rúnar Bjarnason knattspyrnumaður frá Bolungarvík er genginn til liðs við ÍBV og kemur frá Esbjerg í Danmörku. ÍBV staðfesti komu hans í dag og skýrði frá því að hann hefði skrifað undir þriggja ára samning, en áður hafði Esbjerg tilkynnt að hann væri laus allra mála hjá félaginu.

Andri Rúnar er 31 árs gamall sóknarmaður og lék á heimslóðum með BÍ/Bolungarvík til ársins 2014 þar sem hann skoraði 62 mörk í 144 deildaleikjum. Þar af lék hann fjögur ár með liðinu í 1. deild.

Andri lék með Víkingi í Reykjavík í úrvalsdeildinni 2015 og hóf tímabilið 2016 þar en fór strax til Grindavíkur, lék þar út árið í 1. deild og síðan í úrvalsdeildinni 2017. Þar sló hann hrressilega í gegn, skoraði 19 mörk í 22 leikjum og varð markakóngur deildarinnar ásamt því að jafna markamet hennar.

Frá þeim tíma hefur Andri verið í atvinnumennsku erlendis, hjá Helsingborg í Svíþjóð, Kaiserslautern í Þýskalandi og með Esbjerg í Danmörku frá sumrinu 2020. Hann hefur leikið fimm A-landsleiki og skorað eitt mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert