Bjarni Ólafur Eiríksson, einn af reyndustu knattspyrnumönnum landsins, hefur lagt skóna á hilluna en hann skýrði frá þessu í færslu á Facebook.
Bjarni, sem er 39 ára gamall, á að baki 22 ár í meistaraflokki en hann lék með Val frá 2000 til 2019 og er leikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild frá upphafi með 244 leiki. Auk þess lék hann 53 leiki með liðinu í 1. deild snemma á ferlinum. Hann varð Íslandsmeistari með Val 2007, 2017 og 2018 og bikarmeistari 2005, 2015 og 2016.
Hann fór tvisvar í atvinnumennsku á þessum tíma, lék með Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni 2005 til 2007 og með Stabæk í norsku úrvalsdeildinni 2010-2012. Hann lék samtals 128 úrvalsdeildarleiki með þessum tveimur félögum.
Bjarni lauk ferlinum með ÍBV þar sem hann lék allt tímabilið 2020 og kom síðan á ný til liðs við Eyjamenn seinni hluta tímabilsins 2021 þar sem hann hjálpaði ÍBV að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni.
Bjarni lék samtals 437 deildarleiki heima og erlendis á ferlinum og er nítjándi leikjahæsti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi. Hann lék enn fremur 21 A-landsleik og tvo leiki með 21 árs landsliði Íslands.