Ekki ólíklegt að einhverjir leikmenn fari

Agla María Albertsdóttir gæti yfirgefið Breiðablik í janúar.
Agla María Albertsdóttir gæti yfirgefið Breiðablik í janúar. mbl.is/Unnur Karen

Breiðablik leikur lokaleik sinn í B-riðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu á morgun þegar liðið mætir Frakklandsmeisturum París SG í París í Frakklandi.

Blikar eru án stiga í neðsta sæti riðilsins og á ennþá eftir að skora mark en París SG öruggt með efsta sæti riðilsins og komið áfram í átta-liða úrslit keppninnar.

Margir leikmenn liðsins hafa verið orðaður við brottför frá félaginu að riðlakeppninni lokinni en þar ber hæst að nefna leikmenn á borð við Öglu Maríu Albertsdóttur, Karitas Tómasdóttur og Kristínu Dís Árnadóttur.

„Það verður bara að koma í ljós hvort það séu einhverjir að fara spila kveðjuleik á morgun,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Blika, á fjarfundi með blaðamönnum í dag.

„Það er alveg ljóst að hugur einhverja stefnir út í atvinnumennsku og Meistaradeildin er stór gluggi fyrir stelpurnar.

Það er ekki ólíklegt að einhverjir leikmenn fari í janúar en það er ekkert frágengið í þeim efnum og því ekki eitthvað sem er hægt að tala um á þessum tímapunkti,“ bætti Ásmundur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert