„Þessi leikur gegn París SG leggst mjög vel í okkur og við erum spennt,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, á fjarfundi með blaðamönnum í dag en Breiðablik mætir París SG í lokaleik sínum í B-riðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í París á morgun.
Blikar eru án stiga í neðsta sæti riðilsins en liðið bíður ennþá eftir sínu fyrsta marki í keppninni í ár.
„Þetta er lokaleikur riðlakeppninnar og að sjálfsögðu viljum við standa okkur vel. Þetta hefur verið mikil og góð reynsla fyrir leikmenn liðsins þó úrslitin hafi kannski ekki verið okkur hagstæð.
Liðið hefur litið vel út á æfingum og allir leikmenn liðsins eru heilir heilsu og klárir í slaginn. Þetta verður erfiður leikur á morgun en við erum staðráðnar í því að skora mark þó öðrum liðum hafi ekki tekist að gera það gegn París SG í riðlakeppninni,“ sagði Ásmundur.
Breiðablik er fyrsta íslenska liðið sem leikur í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en liðið tekur þátt í 1. umferð keppninnar á næstu leiktíð líkt og Íslandsmeistarar Vals.
„Það hlýtur að vera draumur allra leikmanna að spila á þessu stærsta sviði og í þessum stærstu keppnum. Þetta er tækifæri til þess að máta sig við bestu lið heims og þú færð ekki leið á fótbolta í svona umhverfi.
Umgjörðin í kringum þessa keppni er ótrúleg og þetta hefur verið þvílíkt ævintýri að taka þátt í þessu. Ég tala fyrir hönd allra hjá félaginu þegar ég segi að við myndum vilja vera hérna á hverju einasta ári,“ bætti Ásmundur við.