„Við vorum mjög þéttar varnarlega í leiknum gegn París SG í október og það er eitthvað sem við verðum að reyna endurtaka,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum í París í dag.
Breiðablik heimsækir Frakklandsmeistara París SG í lokaleik sínum í B-riðli Meistaradeildarinnar í París á morgun en Blikar eru án stiga í neðsta sæti riðilsins á meðan París SG er öruggt með efsta sæti riðilsins og komið áfram í átta-liða úrslitin.
„Mér fannst við spila vel varnarlega í síðasta leik gegn Real Madríd þó úrslitin segi kannski annað. Þegar allt kemur til alls getum við ekki verið út um allt á vellinum og við þurfum einfaldlega að vera varnarsinnaðar gegn þessum bestu liðum. Við þurfum að vinna saman sem ein heild.
Á sama tíma hefur það verið frábær reynsla að máta sig gegn þessum bestu liðum heims. Real Madríd er talsvert betra fótboltalið en við en við eigum alveg að geta haldið í við þessi stærstu lið. Þó við höfum ekki náð í þau úrslit sem við hefðum viljað í keppninni hingað til hefur þetta verið ótrúlega skemmtilegt ævintýri,“ sagði Ásta.
Blikar eiga ennþá eftir að skora mark í Meistaradeildinni á tímabilinu.
„Stemningin í hópnum er mjög góð og undirbúningurinn fyrir leikinn hefur verið flottur. Við höfum skerpt aðeins á þeim hlutum sem við höfum þurft að skerpa á en þessi leikur gegn París SG er auðvitað síðasti leikur riðlakeppninnar.
Við neitum að enda þetta öðruvísi en að skora allavega mark og það er klárlega markmið morgundagsins. Það hefur verið frábært að taka þátt í riðlakeppninni og við stefnum á að gera það áfram á næstu árum enda hvergi nærri hættar,“ bætti Ása Eir við.