„Tilfinningin er ekkert sérstök,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum eftir 0:6-tap liðsins gegn París SG í lokaleik sínum í B-riðli Meistaradeildar kvenna í París í kvöld.
Blikar áttu nokkra lipra spretti í fyrri hálfleik en Parísarliðið leiddi með tveimur mörkum gegn engu í hálfleik.
„Það er alltaf svekkjandi að tapa 0:6 og við náðum auðvitað ekki markmiði okkar sem var að skora mark. Ég vil samt hrósa stelpunum fyrir fyrri hálfelikinn. Við fengum á okkur mark sem var lítið hægt að segja við en svo fáum við fín færi til að skora sem tókst ekki að nýta.
Eftir því sem leið á leikinn þá hvarf aðeins orkan í liðinu eins og gengur og gerist og gott lið París SG gekk á lagið. Heilt yfir var þetta hörkureynsla sem við fengu og þetta mun vonandi skila sér inn í klúbbinn á einn eða annan hátt,“ sagði Ásmundur.
Hvað geta Blikar tekið jákvætt með sér úr þessari keppni fyrir utan reynslu?
„Við fengum aðeins að sjá úr hverju leikmenn eru gerðir í þessari keppni og það er líka fullt af hlutum sem við getum lagað sem er líka jákvætt.
Það reyndi mikið á liðið í þessari keppni og við gengum í gegnum ákveðið mótlæti og af því er líka hægt að læra,“ bætti Ásmundur við.