„Mér líst bara ágætlega á þennan riðil,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á fjarfundi með blaðamönnum í dag eftir að dregið hafði verið í riðla fyrir Þjóðadeild UEFA.
Ísland, sem leikur í B-deildinni á næsta ári, dróst í 2. riðil B-deildarinnar ásamt Rússlandi, Ísrael og Albaníu en fjórir leikir verða leiknir í júní á næsta ári og tveir í september.
„Þeir sem hafa fylgst með þessu vita að það er enginn auðveldur leikur eða andstæðingur í þessari B-deild. Fyrirfram á Rússland að vera sterkasta liði í riðlinum enda hæst skrifaðir á styrkleikalista FIFA. Albanía og Ísland eru á svipuðum stað og svo kemur Ísrael þar fyrir aftan.
Það er langt síðan Ísland mætti bæði Rússlandi og Ísrael og það er alltaf gaman að mæta nýjum liðum. Á sama tíma eru þetta kannski ekki beint mest spennandi þjóðirnar til þess að fá á Laugardalsvöll enda ekki mörg nöfn í þessum liðum sem margir kannast við eða þekkja,“ sagði Arnar.
Arnar er að fara inn í sitt annað ár sem þjálfari karlalandsliðsins eftir að hafa verið ráðinn í desember á síðasta ári.
„Það er alltaf press að skila úrslitum í hús og það er eitthvað sem allir íþróttamenn vilja og sækjast eftir. Við förum inn í hvern einasta leik til þess að ná í úrslit. Stærsta verkefnið fyrir næsta ár er að mynda ákveðið mengi af leikmönnum sem munu spila flesta leiki íslenska liðsins í framtíðinni.
Við getum ekki endurtekið leikinn á næsta ári og verið með sama rót á liðinu og í ár. Við vorum með elsta liðið af öllum í undankeppninni held ég í mars og svo var það allt í einu orðið það yngsta í nóvember. Við notuðum líka mikið magn af leikmönnum og það er eitthvað sem við viljum reyna forðast eins og við getum.
Markmiðið fyrir Þjóðadeildina er svo að halda liðinu í B-deildinn en við vitum líka að það verður erfitt. Lið eins og Tyrkland er sem dæmi í C-deildinni núna þannig að þetta verður bæði spennandi og krefjandi verkefni sem verður gaman að takast á við,“ bætti Arnar við.