Árni Marinó Einarsson, ungur og efnilegur markvörður karlaliðs ÍA í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild félagsins.
Nýr samningur Árna Marinós gildir til loka ársins 2023 og verður hann því í röðum uppeldisfélagsins næstu tvö tímabil hið minnsta.
Árni Marinó kom óvænt fram á sjónarsviðið um mitt tímabil í fyrra þegar hann fékk tækifæri í byrjunarliði ÍA eftir slælega frammistöðu Dino Hodzic, sem hafði leyst Árna Snæ Ólafsson fyrirliða af í nokkra leiki eftir að sá síðastnefndi sleit hásin snemmsumars.
Árni Marinó, sem er 19 ára gamall, stóð sig frábærlega í deild og bikar þar sem hann hjálpaði ÍA að bjarga sæti sínu í úrvalsdeildinni á ævintýralegan hátt og að koma Skagamönnum í bikarúrslit í fyrsta sinn í 18 ár.
„Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur Skagamenn,“ sagði í stuttri tilkynningu knattspyrnudeildar ÍA.