Sex mörk í París og Blikar luku keppni án marks

Kadidiatou Diani skoraði eitt marka PSG í kvöld.
Kadidiatou Diani skoraði eitt marka PSG í kvöld. AFP

Breiðablik lauk keppni í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu án þess að skora mark eftir að Kópavogsliðið tapaði lokaleik sínum gegn París SG í frönsku höfuðborginni í kvöld, 6:0.

Blikar fengu eitt stig í sex leikjum, skoruðu ekki mark en fengu á sig 18. PSG vann riðilinn með yfirburðum, fékk 18 stig og skoraði 25 mörk en fékk ekkert á sig.

Parísarliðið réð ferðinni frá byrjun leiks og náði forystunni með glæsilegu marki á 10. mínútu. Svisslenska landsliðskonan Ramona Bachmann skaut af 20 metra færi og beina leið upp í samskeytin hægra megin, gjörsamlega óverjandi, 1:0.

Blikar náðu að halda Parísarliðinu vel í skefjum í fyrri hálfleik þrátt fyrir talsverða pressu og Telma Ívarsdóttir varði nokkrum sinnum vel ásamt því að Kristín Dís Árnadóttir bjargaði á marklínu úr dauðafæri á 14. mínútu.

Agla María Albertsdóttir fékk síðan upplagt færi til að skora fyrsta mark Breiðabliks í keppninni á 28. mínútu. Ásta Árnadóttir sendi boltann fyrir mark Frakkanna frá hægri og Agla María stakk sér á milli miðvarðanna og skallaði af markteig, en beint á Stephanie Labbe í markinu.

Aftur var möguleiki á jöfnunarmarki á 37. mínútu þegar Agla María tók aukaspyrnu á hægri kantinum og sendi fyrir markið. Hildur Antonsdóttir reyndi viðstöðulaust skot í fínu færi rétt utan markteigs en hitti boltann illa og hann fór af samherja hennar aftur fyrir endamörk.

PSG bætti við öðru marki á loksekúndum fyrri hálfleiks. Jordan Huitema skoraði með skalla af markteig eftir sendingu Ashley Lawrence frá hægri, 2:0.

Ramona Bachmann slapp nokkuð vel með að fá aðeins gult spjald í byrjun síðari hálfleiks þegar hún sló til Selmu Sólar Magnúsdóttur sem hafði sótt hart að henni á hliðarlínunni. 

Kadidiatou Diani kom inn á sem varamaður á 56. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði hún, 3:0, eftir mikinn sprett upp hægri kantinn og inn í vítateig Blika sem réðu ekki við kraftinn í henni.

Sandy Baltimore skoraði á 69. mínútu með föstu skoti vinstra megin úr vítateignum í hornið fjær, 4:0.

Breiðablik fékk ekkert marktækifæri í seinni hálfleiknum og mátti sætta sig við að fá á sig tvö mörk á lokamínútunum. Á 86. mínútu skoraði Luana úr vítaspyrnu, eftir að skotið var í hönd Ástu Árnadóttur, og í lok uppbótartímans skoraði Huitema sitt annað mark þegar hún fylgdi eftir skoti sem Telma varði frá Lawrence en hélt ekki boltanum, 6:0.

Miklir yfirburðir Parísarliðsins eins og við mátti búast, enda er þar um að ræða eitt af fimm til sex sterkustu félagsliðum Evrópu í dag. Blikar áttu sína spretti en krafturinn þvarr þegar leið á leikinn, enda þrír mánuðir síðan Íslandsmótinu lauk og ekki einfalt að halda sér í leikæfingu með því að spila bara í Meistaradeildinni. En Kópavogsliðið hefur fengið gríðarlega reynslu af því að taka þátt í riðlakeppninni og hún mun vafalítið koma því til góða á næsta tímabili.

París SG 6:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið PSG vinnur 6:0 og þátttöku Breiðabliks í Meistaradeildinni er lokið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert