„Þessi leikur gegn París SG leggst mjög vel í okkur og við erum spennt,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, á fjarfundi með blaðamönnum gær en Breiðablik mætir París SG í lokaleik sínum í B-riðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í París í dag.
Blikar eru án stiga í neðsta sæti riðilsins en liðið bíður ennþá eftir sínu fyrsta marki í keppninni í ár.
„Þetta er lokaleikur riðlakeppninnar og að sjálfsögðu viljum við standa okkur vel. Þetta hefur verið mikil og góð reynsla fyrir leikmenn liðsins þótt úrslitin hafi kannski ekki verið okkur hagstæð. Það eru allir leikmenn liðsins heilir heilsu og klárir í slaginn. Þetta verður erfiður leikur en við erum staðráðnar í því að skora mark gegn þeim,“ sagði Ásmundur.
Tímabilinu á Íslandi lauk 1. október og hafa einu keppnisleikir Blika því komið í Meistaradeildinni síðustu mánuði.
„Þessi riðlakeppni hefur verið mikil áskorun fyrir alla sem að þessu koma. Leikmenn hafa þurft að halda sér á tánum á milli tarna en miðað við allt er standið á hópnum skrambi gott og við myndum hvergi annars staðar vilja vera.“