Óliver Þorkelsson, 16 ára gamall leikmaður Hamars úr Hveragerði, hefur verið lánaður til hollenska knattspyrnufélagsins De Graafschap, sem leikur í B-deild þar í landi.
Þrátt fyrir ungan aldur lék Óliver 13 leiki fyrir Hamar og skoraði í þeim fjögur mörk í 4. deildinni, fimmtu efstu deild, hér á landi á síðasta tímabili. Auk þess lék hann fimm leiki í úrslitakeppni deildarinnar og einn bikarleik.
Óliver fór á reynslu til De Graafschap í október á þessu ári og stóð sig vel. Félagið vildi enda sjá meira af honum og bauð Óliver sex mánaða lánssamning sem hann og þáði.
Heldur Óliver til Hollands í janúar og mun æfa og spila með U17-ára liði De Graafschap.
„U17 ára lið þeirra leikur í efsta styrkleika og mun Óliver því spila hörkuleiki næstu mánuðina. Óliver fór á reynslu í október og stóð sig það vel að þeir vildu ólmir fá hann til sín.
Óliver er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins, með því að leggja á sig aukalega og hugsa um sig er allt hægt. Það er ekki bara nóg að mæta á skipulagðar æfingar.
Óliver sýnir yngri iðkendum að það er hægt að fara frá Hamri erlendis. Við óskum honum góðs gengis og við munum fylgjast vel með okkar manni,“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnudeild Hamars.