Hallur Hansson, fyrirliði karlaliðs Færeyja í knattspyrnu, er genginn til liðs við KR. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag.
Hallur, sem er 29 ára gamall, kemur til félagsins frá Vejle í Danmörku en hann skrifaði undir tveggja ára samning í Vesturbænum.
Miðjumaðurinn á að baki 66 A-landsleiki fyrir Færeyjar þar sem hann hefur skorað fimm mörk.
Hann hefur einnig leikið með Aberdeen í Skotlandi, HB og Víkingi í Færeyjum og AaB, Vendsyssel og Horsens í Danmörku á ferlinum.
„Hallur hefur á ferli sínum leikið 283 leiki og skorað í þeim 42 mörk,“ segir meðal annars í fréttatilkynningu KR-inga.
Hallur var samherji Kjartans Henry Finnbogasonar, sóknarmanns KR, í nokkur ár þegar þeir voru leikmenn Horsens.