Knattspyrnumaðurinn Gísli Laxdal Unnarsson hefur skrifað undir nýjan samning við Skagamenn til tveggja ára.
Gísli, sem er tvítugur kantmaður, festi sig vel í sessi í liði ÍA á þessu ári. Hann lék alla 22 leiki liðsins í úrvalsdeildinni og skoraði í þeim fjögur mörk. Samtals hefur hann leikið 39 úrvalsdeildarleiki fyrir félagið og skorað sex mörk. Þá var hann markahæsti leikmaður liðsins í bikarkeppninni í ár með þrjú mörk, tvö þeirra í sigri á Keflvíkingum í undanúrslitum.
Gísli klæddist landsliðsbúningi Íslands í fyrsta sinn á árinu þegar hann lék einn leik með 21-árs landsliðinu, gegn Portúgal í undankeppni EM.