Knattspyrnukonan Fanndís Friðriksdóttir hefur staðfest að hún er með slitið krossband á hné og mun hún því ekki leika með Val á komandi tímabili.
„Fótboltahjartað er í 1.000 molum. Krossbandið slitið, langt og strangt ferli fram undan. Knús og kossar,“ skrifaði Fanndís á instagramaðgangi sínum í dag.
Fanndís hafði snúið aftur á knattspyrnuvöllinn um mitt síðasta tímabil eftir barnsburð og lét vel að sér kveða þegar Valur stóð uppi sem Íslandsmeistari í haust.
Á síðasta tímabili lék hún 12 leiki í úrvalsdeildinni og skoraði fjögur mörk, auk þess sem hún lék þrjá bikarleiki og skoraði í þeim tvö mörk.