Sé Gylfa Þór ekki spila fótbolta aftur

„Ég sé Aron Einar Gunnarsson ekki spila aftur fyrir íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu,“ sagði Eva Björk Benediktsdóttir, íþróttafréttamaður á RÚV, í íþróttauppgjöri Dagmála, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Framtíð reynslumikla leikmanna á borð við Aron Einar og Gylfa Þór Sigurðsson er í mikilli óvissu en Aron Einar, sem hefur verið fyrirliði karlalandsliðsins undanfarinn áratug, hefur verið sakaður um nauðgun.

Þá var Gylfi Þór handtekinn á Bretlandi í júlí fyrir brot gegn ólögráða einstaklingi en þeir hafa verið algjörir máttarstólpar í íslenska liðinu síðustu ár.

„Segjum sem svo að máli Arons verði vísað frá og hann geti spilað aftur með landsliðinu; vill hann þá sjálfur koma aftur og verður hann yfirhöfuð valinn?“ sagði Eva Björk.

„Þetta snýst líka um samvisku leikmanna og hvort þeir séu tilbúnir að spila fyrir land og þjóð, verandi með eitthvað slæmt á samviskunni,“ sagði Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttamaður á RÚV.

Hörður Snævar Jónsson, fréttastjóri íþrótta hjá Torgi, átti svo lokaorðið:

„Ég sé Gylfa Þór Sigurðsson ekki spila fótbolta aftur, sama hvernig hans mál fara, og annað myndi koma mér á óvart,“ bætti Hörður Snævar við.

Áramótaþáttur og íþróttauppgjör Dagmála birtist á vef Dagmála að morgni gamlársdags og má nálgast þáttinn með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert