Helgi Sigurðsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Vals í knattspyrnu. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Helgi, sem er 47 ára gamall, tók við ÍBV árið 2019 en hann lét af störfum eftir síðasta tímabil eftir að hafa komið liðinu upp í efstu deild.
Hann var ráðinn þjálfari 2. flokks karla hjá Fjölni um miðjan nóvember en mun láta af störfum í Grafarvoginum til þess að færa sig yfir á Hlíðarenda að því er Hjörvar greinir frá á Twitter.
Srdjan Tufegdzic lét af störfum sem aðstoðarþjálfari liðsins á dögunum þegar hann var ráðinn þjálfari sænska B-deildarfélagsins Öster og hafa Valsmenn því verið í leit að nýjum aðstoðarþjálfara.
Helgi stýrði Fylki frá 2017 til ársins 2019 og kom liðinu upp í efstu deild en hann á að baki 62 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hann skoraði tíu mörk.