Ísland mætir Spáni í mars

Grétar Rafn Steinsson, Hermann Hreiðarsson, Ívar Ingimarsson og Kári Árnason …
Grétar Rafn Steinsson, Hermann Hreiðarsson, Ívar Ingimarsson og Kári Árnason í baráttu við Xabi Alonso í landsleik gegn Spáni árið 2007. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Spánverjum í vináttulandsleik í marsmánuði en Knattspyrnusamband Íslands staðfesti þetta á vef sínum í dag.

Leikurinn fer fram á Spáni 29. mars en leikstaður hefur ekki verið ákveðinn. Íslenska liðið leikur annan leik um svipað leyti en mótherjar þar hafa ekki verið staðfestir.

Spánverjar hafa um árabil verið með eitt besta landslið heims og urðu Evrópumeistarar 2008 og 2012 og heimsmeistarar 2010.

Ísland mætti einmitt Spáni síðast árið 2007, í undankeppni Evrópumótsins, og þá urðu óvænt úrslit á Laugardalsvellinum, 1:1, þar sem Emil Hallfreðsson kom Íslandi yfir en Spánverjar jöfnuðu fjórum mínútum fyrir leikslok með marki frá Andrés Iniesta, leikmanni Barcelona.

Spánverjar unnu sinn heimaleik naumlega, 1:0, fyrr á sama ári. 

Ísland hefur sigrað Spán einu sinni í níu viðureignum þjóðanna, 2:0 árið 1991 á Laugardalsvellinum, í undankeppni EM.

Þar með hefur verið gengið frá þremur vináttulandsleikjum á fyrstu mánuðum ársins en Ísland mætir Úganda og Suður-Kóreu í janúar. Leikir Íslands í Þjóðadeild UEFA fara fram í júní og september, þegar liðið leikur gegn Ísrael, Rússlandi og Albaníu, heima og heiman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert