Antonio Conte knattspyrnustjóri Tottenham vill fá Dean Henderson í markið hjá sínu liði, samkvæmt frétt Daily Express í dag.
Henderson, sem hefur verið í landsliðshópi Englands að undanförnu, hefur mátt sitja á varamannabekk Manchester United í vetur, þar sem David de Gea hefur verið í miklu stuði í markinu. De Gea hefur leikið alla sautján leiki United í úrvalsdeildinni á tímabilinu en Henderson spilaði talsvert á síðasta tímabili.
Tottenham sér væntanlega á bak markverðinum og fyrirliðanum Hugo Lloris eftir þetta tímabil. Samningur hans rennur út í vor og samkvæmt enskum og frönskum fjölmiðlum er hann spenntur fyrir því að ganga til liðs við Nice.