Ísland er komið í níunda sætið á styrkleikalista Evrópu yfir sterkustu deildir álfunnar í knattspyrnu kvenna eftir stigasöfnun Breiðabliks og Vals í Meistaradeild kvenna á yfirstandandi keppnistímabili.
Ísland var í tólfta sæti fyrir þetta tímabil og það færði íslenskum liðum tvö sæti í nýrri útgáfu af Meistaradeildinni 2021-22, þannig að bæði Breiðablik, sem Íslandsmeistari 2020, og Valur, sem liðið í öðru sæti, fengu keppnisrétt.
Breiðablik vann þrjá leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði fimm leikjum í Meistaradeildinni þar sem liðið komst í riðlakeppnina. Valur féll út í fyrstu umferð en vann annan af tveimur leikjum sínum.
Stigin sem Breiðablik og Valur kræktu í dugðu til að lyfta Íslandi enn ofar, eða úr tólfta sætinu í það níunda eins og staðan er núna í árslok. Sú staða mun ekki breytast til vorsins því þau lið sem komust í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eru öll frá löndum sem eru fyrir ofan Ísland á listanum, Frakklandi (PSG og Lyon), Þýskalandi (Bayern og Wolfsburg), Spáni (Barcelona og Real Madrid), Englandi (Arsenal) og Ítalíu (Juventus).
Staða Íslands er afar áhugaverð, ekki síst þar sem öflugar knattspyrnuþjóðir í kvennaflokki eru neðar á listanum. Þannig er til dæmis Holland í 11. sæti og Noregur í 12. sæti.
Staða og stig sextán bestu deildanna í Evrópu er sem hér segir:
1 Frakkland 80.666
2 Þýskaland 70.666
3 England 64.333
4 Spánn 60.500
5 Svíþjóð 33.166
6 Tékkland 31.833
7 Danmörk 27.750
8 Ítalía 27.000
9 ÍSLAND 24.250
10 Kasakstan 23.000
11 Holland 23.000
12 Noregur 21.000
13 Skotland 20.500
14 Hvíta-Rússland 19.500
15 Úkraína 18.500
16 Austurríki 18.500
Staða Kasakstans á listanum er athyglisverð en hún stafar af því að meistaralið landsins, Kazygurt, stóð sig mjög vel í Meistaradeildinni á árunum 2017 til 2021. Jafnan eru stig frá fimm síðustu árum talin með þegar staða þjóðanna er reiknuð út. Fimmtíu Evrópuþjóðir eru á listanum.
Þjóðirnar í sex efstu sætunum fá að senda þrjú lið í Meistaradeildina, þjóðirnar í sjöunda til sextánda sæti tvö lið, en aðrar þjóðir eitt lið hvert.
Eins og staðan er núna eru bæði Sviss og Rússland dottin úr hópi sextán efstu og missa því væntanlega bæði eitt lið út fyrir næstu keppni. Úkraína og Austurríki eru komin í hóp sextán efstu í staðinn. Kharkiv frá Úkraínu sem var með Breiðabliki í riðli hefur fleytt landinu upp um tólf sæti á listanum með frammistöðu sinni í vetur.
Breiðablik og Valur verða áfram fulltrúar Íslands í Meistaradeildinni 2022-23. Nú er gríðarlega mikilvægt fyrir íslensku liðin að þau safni talsverðu af stigum í sarpinn því eftir þetta tímabil dettur út tímabilið 2017-18 sem var mjög sterkt í stigasöfnun Íslands því þá komst Stjarnan í 16-liða úrslit eftir að hafa unnið fjóra leiki og gert tvö jafntefli í keppninni.