Titilvörn Víkinga hefst gegn FH

Víkingur og FH mætast í fyrsta leik Íslandsmótsins 2022.
Víkingur og FH mætast í fyrsta leik Íslandsmótsins 2022. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Víkingar úr Reykjavík hefja titilvörn sína á Íslandsmóti karla í knattspyrnu á öðrum degi páska, 18. apríl, samkvæmt drögum að mótinu sem Knattspyrnusamband Íslands birti í dag.

Víkingar taka þá á móti FH á Víkingsvellinum og það verður eini leikurinn á fyrsta degi mótsins.

Daginn eftir, þriðjudaginn 19. apríl, leika Valur og ÍBV á Hlíðarenda, Breiðablik og Keflavík í Kópavogi og Stjarnan mætir ÍA í Garðabæ. Fyrstu umferð lýkur á miðvikudeginum 20. apríl þegar Fram fær KR í heimsókn á nýja völlinn í Úlfarsárdal og KA tekur á móti Leikni R., væntanlega á Dalvíkurvelli.

Allir leikir 1. umferðar verða þá leiknir á gervigrasi en síðan tekur við 2. umferð þar sem öll sex heimaliðin eru með grasvelli. Leikið er 24. og 25. apríl og þar mætast ÍBV - KA, Leiknir R. - Stjarnan, ÍA - Víkingur R., Keflavík - Valur, KR - Breiðablik og FH - Fram.

Hefðbundinni tvöfaldri umferð lýkur með 22. umferðinni laugardaginn 17. september. Þá tekur við nýja viðbótin sem væntanlega verður samþykkt á ársþingi KSÍ í febrúar. Fimm umferðir verða leiknar í viðbót þar sem sex efstu liðin spila innbyrðis í efri hlutanum og sex neðri liðin spila innbyrðis. Lokaumferðin þar verður 29. október.

Keppni í 1. deild karla hefst 5. maí og þar mætast í fyrstu umferð HK - Selfoss, Fylkir - KV, Þór - Kórdrengir, Þróttur Vogum - Fjölnir, Afturelding - Grindavík og Grótta - Vestri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert