Tvö af þremur efstu mætast í fyrstu umferðinni

Valur og Þróttur í baráttu á Hlíðarenda síðasta sumar.
Valur og Þróttur í baráttu á Hlíðarenda síðasta sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Liðin sem enduðu í fyrsta og þriðja sæti úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu mætast í fyrsta umferð deildarinnar á árinu 2022 samkvæmt drögum að niðurröðun deildarinnar sem Knattspyrnusamband Íslands birti í dag.

Valskonur urðu Íslandsmeistarar 2021 og Þróttarkonur náðu sínum besta árangri, þriðja sætinu, en liðin eiga að mætast í fyrstu umferðinni á Hlíðarenda þriðjudagskvöldið 26. apríl.

Upphafsleikur deildarinnar hefst þó fyrr um kvöldið á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum þar sem ÍBV fær Stjörnuna í heimsókn.

Hinir leikir fyrstu umferðar fara fram miðvikudaginn 27. apríl og þá mætat KR - Keflavík, Breiðablik - Þór/KA og Afturelding - Selfoss.

Deildinni lýkur ekki fyrr en 1. október að þessu sinni og í lokaumferðinni mætast ÍBV - Afturelding, Breiðablik - Þróttur, KR - Þór/KA, Valur - Selfoss og Stjarnan - Keflavík.

Fyrsta umferð 1. deildar kvenna á að fara fram 5. til 7. maí og þar mætast Tindastóll - Grindavík, Haukar - FH, Víkingur R. - Augnablik, Fylkir - HK og Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir - Fjölnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert