„Þetta var upphafið að falli KSÍ,“ sagði Eva Björk Benediktsdóttir, íþróttafréttamaður á RÚV, í íþróttauppgjöri Dagmála, frétta- og menningarlífsþáttar Morgunblaðsins.
Það gekk mikið á hjá Knattspyrnusambandi Íslands á árinu 2021 en sambandið var harðlega gagnrýnt fyrir þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.
Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður sambandsins í lok ágúst og stjórn KSÍ fylgdi svo í kjölfarið degi síðar.
„Það kom upp hvert málið á fætur öðru hjá KSÍ og þetta var í raun bara eins og einhver lygasaga þegar öll þessi mál hrúguðust inn,“ sagði Kristjana Arnarsdóttir á RÚV.
„Öll þessi mál voru mjög illa tækluð líka og maður hugsaði oft að vont gæti ekki versnað en svo bara varð þetta verra og verra og maður hristir í raun bara hausinn yfir þessu núna, hugsandi til baka,“ bætti Kristjana við.
Áramótaþátt og íþróttauppgjör Dagmála í heild sinni má nálgast með því að smella hér.