Þrjú af þeim átta liðum sem berjast um Evrópumeistaratitil kvenna í fótbolta á komandi vormánuðum eru með íslenskar landsliðskonur í sínum röðum. Þetta segir meira en mörg orð um stöðu íslenskra knattspyrnukvenna á heimsvísu í íþróttinni.
Segja má að sprenging hafi orðið í „útflutningi“ á íslenskum knattspyrnukonum til erlendra atvinnuliða undanfarin tvö ár. Árið 2018 léku fjórtán íslenskar konur með erlendum liðum. Árið 2019 voru þær átján en nú í árslok 2021 eru þær þrjátíu talsins.
Þetta hefur komið íslenska landsliðinu til góða. Af 24 landsliðskonum sem komu við sögu í leikjum Íslands í undankeppni heimsmeistaramótsins á síðustu mánuðum ársins leika sextán með erlendum atvinnuliðum. Í byrjunarliði íslenska liðsins í haust voru jafnan níu eða tíu atvinnukonur í íþróttinni.
Um leið hefur yngri kynslóð leikmanna látið verulega að sér kveða síðustu tvö árin. Stúlkur um tvítugt eins og Sveindís Jane Jónsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hafa komið með ferskan blæ inn í liðið, fest sig þar í sessi á skömmum tíma og breytt spilamennsku þess umtalsvert. Eldri og reyndari leikmenn eins og Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir (sem er reyndar aðeins 26 ára) hafa notið góðs af því að fá þessar öflugu stúlkur við hliðina á sér.
Á skömmum tíma hefur íslenska liðið breyst frá því að vera í vandræðum með að halda bolta lengi innan liðsins og treyst frekar á kraftinn og föstu leikatriðin, í það að vera afbragðsvel spilandi og hættulegur andstæðingur hverjum sem er.
Á þessu ári hefur burðarás liðsins og fyrirliði, Sara Björk Gunnarsdóttir, verið í barneignarfríi, en skarð hennar hefur verið fyllt betur en búast mátti við og Sara er nú komin í kapphlaup við tímann um að ná fyrri styrk og stöðu í tæka tíð fyrir Evrópukeppnina á Englandi næsta sumar.
En það er ekkert nýtt að Ísland sé framarlega í flokki meðal þjóða Evrópu og heimsins þegar kemur að knattspyrnu í kvennaflokki. Ísland var með í undankeppni fyrsta Evrópumótsins og lék sína fyrstu mótsleiki á árunum 1982-1983 og var ein af aðeins sextán þjóðum sem þá tóku þátt. Bakslag kom í landsliðsmálin þegar kvennalandsliðið var lagt niður um skeið vegna fjárskorts KSÍ en strax eftir endurreisnina sló íslenska landsliðið í gegn árið 1994 með því að komast í átta liða úrslit Evrópumótsins. Árangur sem oft hefur gleymst í seinni tíð en þarna voru upp á sitt besta brautryðjendur eins og Ásta B. Gunnlaugsdóttir, Vanda Sigurgeirsdóttir og Auður Skúladóttir og ungar og bráðefnilegar stúlkur eins og Ásthildur Helgadóttir, Olga Færseth, Margrét Ólafsdóttir og Katrín Jónsdóttir.
Greinin í heild sinni er í Tímamótum, áramótablaði Morgunblaðsins, sem er gefið út í samvinnu við New York Times.