TÍMAMÓT: Um karlmennsku og knattspyrnu

KSÍ var meðal annars sakað um þöggun, gerendameðvirkni og síðast …
KSÍ var meðal annars sakað um þöggun, gerendameðvirkni og síðast en ekki síst kvenfyrirlitningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar íslenska knattspyrnuárið 2021 er gert upp er af mörgu að taka. Aldrei sem áður voru það þó ekki afrek íþróttafólks á knattspyrnuleikvangnum sem vöktu hvað mesta athygli heldur gjörðir þeirra utan vallar og þá ekki síður viðbrögð Knattspyrnusambands Íslands vegna þeirra.

Óhætt er að segja að stungið hafi verið á kýli í íslensku samfélagi þegar upp komst að forysta KSÍ hefði búið yfir vitneskju um að leikmenn íslenska karlalandsliðsins í fótbolta hefðu verið sakaðir um kynferðisofbeldi án þess að aðhafast í málinu. Fleiri frásagnir um ofbeldi af hálfu landsliðsmanna komu í kjölfarið upp á yfirborðið og mikil umræða hófst þar sem KSÍ var meðal annars sakað um þöggun, gerendameðvirkni og síðast en ekki síst kvenfyrirlitningu.

Ég ætla ekki að eyða tíma lesenda í að rekja atburðarásina sem upphófst í þaula enda er flestum kunnugt hvað gengið hefur á í íslenska knattspyrnuheiminum síðustu mánuði.

Sögur af kynferðisofbeldi innan íþróttahreyfingarinnar eru þó ekki nýjar af nálinni en í ársbyrjun 2018 skrifuðu hátt í fimmhundruð íþróttakonur undir yfirlýsingu og samantekt á sögum af kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Voru gerendur ýmist þjálfarar, dómarar, stjórnarmenn, sjúkraþjálfarar eða aðrir iðkendur. Sagði í yfirlýsingunni að kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun væri vandamál í heimi íþróttanna.

Ljóst er að kynferðisofbeldi einskorðast hvorki við knattspyrnumenn né íþróttahreyfinguna, heldur er um umfangsmikið vandamál að ræða sem er uppi í flestum samfélögum. Hins vegar hefur menningin sem þrífst innan íþrótta, og ekki síður knattspyrnuheimsins, það orð á sér fyrir að vera karllæg. Hefur því umræðan undanfarnar vikur að miklu leyti beinst að þessari menningu sem gjarnan hefur verið kennd við búningsklefana, svæði sem er konum með öllu óaðgengilegt.

Ekki eru allir á sama máli um að hve miklu leyti kvenfyrirlitning þrífist enn innan knattspyrnuheimsins, enda er það eflaust mismunandi milli landa, samfélaga og síðast en ekki síst knattspyrnufélaga. Ég fagna öllum þeim framförum sem hafa átt sér stað undanfarin ár og vil síður en svo gera lítið úr þeim. Hins vegar get ég ekki tekið undir þau sjónarmið að karllægni og kvenfyrirlitning séu með öllu horfin úr heimi knattspyrnunnar.

Þriðjungur iðkenda kvenkyns

Í gegnum tíðina hafa líkaminn og líkamlegt atgervi verið órjúfanlegir þættir í sköpun karlmennskunnar. Keppnisskap, styrkleiki, drengskapur og vöðvakraftur eru meðal þeirra eiginleika sem hér áður fyrr voru taldir einkenna „alvöru“ karlmann. Hafa íþróttir því reynst mikilvægar í þessu samhengi sem vettvangur fyrir karlmannlega sýndarmennsku - og þá sérstaklega knattspyrna sem er óumdeilanlega vinsælasta íþrótt heims í dag.

Að sama skapi hefur sögulega reynst erfitt fyrir konur og „ókarlmannlega“ karlmenn að taka þátt í að móta menninguna sem þar finnst. Í dag er um þriðjungur knattspyrnuiðkenda á Íslandi kvenkyns, og hallar enn frekar á hlutfall kvenna í öðrum hlutverkum innan knattspyrnuhreyfingarinnar, til að mynda í stjórnum eða þjálfarastöðum. Er hlutfall kvenna þá nokkuð hátt hérlendis miðað við nágrannaþjóðir okkar.

Greinin í heild sinni er í Tímamótum, áramótablaði Morgunblaðsins og New York Times.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert