Árið tók Eið Smára að þolmörkum

Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson á hliðarlínunni í …
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson á hliðarlínunni í landsleik Íslands og Liechtenstein í október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiður Smári Guðjohnsen, fyrrverandi aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, setti inn áhugaverða færslu á samfélagsmiðlinum Instagram þegar árið 2022 gekk í garð.

Eiður Smári, sem er 43 ára gamall, lét af störfum sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í lok nóvember en hann tók við liðinu ásamt Arnari Þór Viðarssyni í desember 2020.

Það gekk mikið á hjá Knattspyrnusambandi Íslands og karlalandsliðinu á árinu 2021 en margir burðarásar í liðinu undanfarinn áratug voru sakaðir um ofbeldis- og kynferðisbrot.

Þá var Knattspyrnusambandið sakað um bæði þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.

Arnar Þór og Eiður Smári þurftu því að búa til nánast nýtt lið á einu ári en þjálfararnir notuðu alls 36 leikmenn í undankeppni HM 2022 þar sem liðið endaði í fimmta og næstneðsta sæti J-riðils.

„Takk 2021,“ skrifaði Eiður á Instagram.

„Þú tókst mig að þolmörkum en þú tapaðir! Gleðilegt ár!“ bætti Eiður Smári við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert