Einnig leikið gegn Finnum í mars

Íslenska landsliðið mætir því finnska í lok marsmánaðar.
Íslenska landsliðið mætir því finnska í lok marsmánaðar. Ljósmynd/Alex Nicodim

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur tilkynnt að íslenska karlalandsliðið muni einnig spila vináttulandsleik gegn Finnlandi í landsleikjaglugganum í mars.

Áður hafði verið tilkynnt um vináttuleik við Spánverja á Spáni 29. mars. Leikurinn við Finnland og fer fram þremur dögum fyrr, þann 26. mars, og verður hann einnig leikinn á Spáni.

Samkvæmt tilkynningu KSÍ verður leikstaður leiksins við Spánverja tilkynntur síðar en leikurinn við Finna fer fram á Stadium Enrique Roca í Murcia.

Finnar eru sem stendur í 58. sæti á styrkleikalista FIFA og voru á meðal þátttökuþjóða í úrslitakeppni EM síðasta sumar.

Finnland og Ísland hafa mæst 12 sinnum í A-landsliðum karla og var fyrsta viðureignin leikin árið 1956. Ísland hefur unnið þrjá leiki, tvisvar sinnum hafa liðin gert jafntefli og sjö sinnum hafa Finnar farið með sigur af hólmi.

A-landslið karla leikur einnig tvo vináttuleiki í janúar, gegn Úganda þann 12. janúar og Suður-Kóreu 15. janúar. Fara þeir báðir fram í Tyrklandi.

Leikmannahópurinn fyrir það verkefni verður tilkynntur í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert