Karlalið Tindastóls á Sauðárkróki átti sitt lakasta tímabil í knattspyrnusögunni á árinu 2021 þegar það féll niður í fimmtu efstu deild, 4. deildina. Nú hafa Skagfirðingar hinsvegar blásið til sóknar.
Tindastóll hafnaði í botnsæti 3. deildar í ár enda þótt liðið hefði verið það fjórða markahæsta af tólf liðum í deildinni. Tap gegn KFS í Vestmannaeyjum í lokaumferðinni felldi Skagfirðinga endanlega en sigur hefði tryggt þeim áframhaldandi 3. deildarsæti.
Tindastóll verður því í fyrsta skipti í fimmtu efstu deild á þessu ári og fall liðsins er umtalsvert á sjö árum en Sauðkrækingar léku síðast í 1. deildinni árin 2012 til 2014. Þeir hafa því fallið um þrjár deildir frá þeim tíma.
Í dag sendi félagið frá sér tilkynningu um að samið hefði verið við sextán leikmenn fyrir komandi tímabil. Halldór Jón Sigurðsson er kominn heim á Sauðárkrók til að þjálfa bæði karla- og kvennalið Tindastóls og sinna starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá félaginu en hann gerði m.a. Þór/KA að Íslandsmeisturum kvenna árið 2017.
Donni, eins og hann er jafnan kallaður, segir m.a. í tilkynningu félagsins: „Þetta sýnir að leikmenn ætla að þétta sér saman og vilja koma liðinu aftur upp um deild og helst deildir á næstu árum.”