Ísak Snær Þorvaldsson er genginn til liðs við karlalið Breiðabliks í knattspyrnu. Þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag.
Ísak Snær, sem er tvítugur, kemur til félagsins frá Norwich en hann rifti samningi sínum á Englandi svo hann gæti samið í Kópavoginum.
Miðjumaðurinn skrifaði undir þriggja ára samning við Kópavogsliðið en hann hefur leikið undanfarin tvö sumur með ÍA á Akranesi.
Ísak á að baki 27 leiki í efstu deild hér á landi með ÍA þar sem hann hefur skorað þrjú mörk og þá á hann að baki 23 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.