Markvörðurinn Jökull Andrésson hefur verið valinn í A-landsliðshóp Íslands í knattspyrnu í fyrsta skipti.
Hann kemur í staðinn fyrir Patrik Sigurð Gunnarsson markvörð hjá Viking Stavanger sem er meiddur og varð að draga sig út úr hópnum fyrir leikina gegn Úganda og Suður-Kóreu sem fram fara í Antalya í Tyrklandi 12. og 15. janúar.
Jökull er tvítugur og hefur verið í röðum Reading á Englandi undanfarin ár en hann er nú í láni hjá C-deildarliðinu Morecambe þar sem hann hefur varið mark liðsins í 13 deildarleikjum í vetur. Hann lék fyrstu tvo leiki sína með 21-árs landsliði Íslands í haust.