Ekkert verður af því að Skandinavíudeildin svokallaða í knattspyrnu í karlaflokki hefjist þann 24. janúar en þar ætluðu tvö íslensk lið að taka þátt.
Íslands- og bikarmeistarar Víkings eru skráðir til leiks ásamt KA og liðum af hinum Norðurlöndunum.
Forvígismenn keppninnar sendu frá sér tilkynningu síðdegis í dag og tilkynntu að vegna stöðu mála í útbreiðslu kórónuveirunnar hafi verið ákvaðið að fresta Skandinavíudeildinni sem fram átti að fara dagana 24. janúar til 6. febrúar.
Sagt er í yfirlýsingunni að reynt verði að finna nýjar dagsetningar fyrir keppnina sem henti öllum þátttökuliðunum.