Kristín Dís til Bröndby

Kristín Dís Árnadóttir í leik með Breiðabliki á síðasta tímabili.
Kristín Dís Árnadóttir í leik með Breiðabliki á síðasta tímabili. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Knattspyrnukonan Kristín Dís Árnadóttir er búin að skrifa undir langtímasamning við danska úrvalsdeildarfélagið Bröndby. Kemur hún frá uppeldisfélagi sínu Breiðabliki þar sem hún hefur leikið nánast allan sinn feril til þessa.

Kristín Dís, sem er 22 ára gömul, hefur einnig leikið með Augnabliki og Fylki á láni, reynir nú fyrir sér í atvinnumennsku í fyrsta sinn á ferlinum en þrátt fyrir ungan aldur er hún þaulreynd, enda alls búin að spila 89 leiki í efstu deild og 11 til viðbótar í næstefstu deild.

„Ég er mjög ánægð með að hafa skrifað undir samning við Bröndby og ég hlakka mikið til þessa nýja kafla á ferlinum. Ég valdi að semja við Bröndby vegna þess að mér líkar vel við leikstíl liðsins og hef fengið mjög góða mynd af þjálfurunum og starfsfólkinu í kringum liðið.

Að sama skapi tel ég mig geta hjálpað liðinu að halda áfram að þróast. Ég byrjaði að spila fótbolta með Breiðabliki þegar ég var fjögurrar ára og hef spilað þar síðan. Mér fannst því kominn tími til að prófa eitthvað nýtt og ég hlakka til að hitta nýju liðsfélaga mína og alla hina sem eru hluti af félaginu,“ sagði Kristín Dís í samtali við heimasíðu Bröndby.

Barbára Sól Gísladóttir lék með Bröndby fyrri hluta tímabilsins sem lánsmaður frá Selfossi en sneri aftur heim fyrir jól. Bröndby er í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar eftir fyrri hlutann, á eftir Köge og Fortuna Hjörring, en sex efstu liðin leika áfram um meistaratitilinn á nýju ári og sú keppni hefst seinnipartinn í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert