Ágúst Eðvald Hlynsson er genginn í raðir karlaliðs Vals í knattspyrnu. Kemur hann á láni frá danska B-deildarliðinu Horsens og leikur með Val út komandi keppnistímabil.
Ágúst Eðvald, sem er 22 ára gamall og iðulega í U21-árs landsliði Íslands, er uppalinn hjá Breiðabliki en fór ungur að árum til Norwich City og þaðan skömmu síðar til Bröndby.
Hann kom svo heim til Íslands og lék með Víkingi úr Reykjavík tímabilin 2019 og 2020. Hann var keyptur þaðan til Horsens en var á láni hjá FH fyrri hluta síðasta tímabils.
Ágúst Eðvald á að baki 53 leiki í efstu deild hér á landi með Breiðabliki, Víkingi og FH og hefur skorað í þeim 12 mörk.,
Hann hefur alls leikið 31 leik fyrir yngri landslið Íslands, þar sem hann hefur skorað fimm mörk.
„Það verður spennandi að fylgjast með þessum öfluga leikmanni í sumar. Við bjóðum Ágúst velkominn á Hlíðarenda,“ segir í tilkynningu frá knattspyrnudeild Vals.