Knattspyrnukonan Sandra María Jessen er komin til liðs við Þór/KA á nýjan leik eftir atvinnumennsku í Þýskalandi.
Akureyri.net greinir frá þessu í dag.
Sandra, sem er 27 ára gömul, er að fara aftur af stað eftir að hafa eignast barn á síðasta ári en hún lék fram að því með Leverkusen í Þýskalandi. Hún lék annars með Þór/KA til 2018 og varð Íslandsmeistari með liðinu bæði 2012 og 2017 og var fyrirliði í seinna skiptið.
Sandra hefur leikið 31 landsleik fyrir Íslands hönd og skorað í þeim sex mörk. Hún lék 116 úrvalsdeildarleiki með Þór/KA og skoraði í þeim 73 mörk á árunum 2011 til 2018 en hún er næstmarkahæsti leikmaður félagsins í efstu deild og sú fjórða leikjahæsta.