Karlalandslið Íslands og Úganda í knattspyrnu skildu jöfn, 1:1, í vináttulandsleik sem fram fór í Antalya í Tyrklandi í dag. Eftir fjörugan fyrri hálfleik, þar sem bæði mörkin voru skoruð, gerðist lítið sem ekkert í þeim síðari og sættust liðin því á jafnan hlut.
Íslenska liðið byrjaði af krafti og náði forystunni strax á sjöttu mínútu leiksins með sinni fyrstu marktilraun.
Viðar Ari Jónsson og Viktor Karl Einarsson léku þá vel sín á milli sem endaði með því að Viðari Ari náði góðri fyrirgjöf beint á kollinn á Jón Daða Böðvarsson sem smeygði sér fram fyrir Charles Lukwago í marki Úganda og skallaði boltann í autt markið af stuttu færi.
Þetta var fjórða landsliðsmark Jóns Daða í hans 61. landsleik.
Eftir rétt rúmlega hálftíma leik átti Arnór Ingvi Traustason, sem var fyrirliði Íslands í dag, allt of lausa sendingu til baka. Steven Mukwala, sóknarmaður Úganda, komst inn í hana, Ari Leifsson reyndi að stíga hann út en reif hann niður innan vítateigs og vítaspyrna dæmd.
Kaddu Patrick steig á vítapunktinn og skoraði með því að setja boltann á mitt markið. Jökull Andrésson í marki Íslands skutlaði sér til hliðar en náði aðeins að snerta boltann og var því nokkuð nálægt því að verja vítaspyrnuna.
Það tókst þó illu heilli ekki og staðan orðin 1:1.
Jón Daði fékk fínt skotfæri undir lok fyrri hálfleiks en skot hans við vítateigslínuna var varið af Lukwago.
Staðan því jöfn í leikhléi.
Síðari hálfleikurinn var ansi tíðindalítill fyrir utan gott færi sem Jón Daði fékk á 55. mínútu. Úgandamenn áttu þá í vandræðum með að hreinsa frá, Jón Daði skaut að marki úr dauðafæri en varnarmaður Úganda komst í veg fyrir skotið.
Viktor Karl Einarsson náði til boltans í kjölfarið og þaðan fór hann í höndina á Úgandamanni. Íslendingar vildu fá dæmda vítaspyrnu en varð ekki að ósk sinni.
Leikurinn fjaraði svo út og 1:1 jafntefli því niðurstaðan í þessari fyrstu viðureign milli þessara landsliða í sögunni.
Alls léku átta leikmenn sinn fyrsta A-landsleik fyrir Ísland í dag. Markverðirnir Jökull og Hákon Rafn Valdimarsson gerðu það ásamt Finni Tómasi Pálmasyni, Atla Barkarsyni, Viktori Örlygi Andrasyni, Viktor Karli, Valdimar Þór Ingimundarsyni og Kristali Mána Ingasyni.
Ísland mætir næst Suður-Kóreu, einnig í Antalya í Tyrklandi, og fer sá leikur fram klukkan 11 á laugardag.