Bjarni Mark Antonsson knattspyrnumaður frá Akureyri sem hefur leikið með sænska liðinu Brage, er að ganga til liðs við norska félagið Start frá Kristiansand samkvæmt heimildum mbl.is.
Bjarni, sem lék með KA og Fjarðabyggð í 1. deild árin 2014-15, með Kristianstad í sænsku C-deildinni 2016-17 og KA í úrvalsdeildinni 2018, hefur leikið með Brage í sænsku B-deildinni undanfarin þrjú ár.
Start hefur verið á flakki milli tveggja efstu deildanna í Noregi undanfarin ár en mistókst að komast aftur upp í úrvalsdeildina á síðasta tímabili og endaði í 9. sæti B-deildarinnar. Jóhannes Harðarson var þjálfari liðsins en honum var sagt upp störfum eftir aðeins fimm umferðir.
Bjarni Mark er 26 ára miðjumaður og hefur leikið tvo A-landsleiki fyrir Íslands hönd.