Knattspyrnukonan Elísa Viðarsdóttir hefur framlengt samning sinn við Íslandsmeistara Vals. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Elísa, sem er þrítug, skifaði undir eins árs samning við félagið sem gildir út þetta tímabil en hún hefur verið í lykilhlutverki á Hlíðarenda undanfarin ár.
Bakvörðurinn æfði meðal annars með Köge í Danmörku og Rosengård í Svíþjóð fyrir áramót en hefur nú ákveðið að spila með Valskonum á komandi keppnistímabili.
„Það er mikil ánægja að tilkynna að fyrirliðinn okkar hefur skrifað undir nýjan samning en hún átti frábært tímabil síðasta sumar þar sem hún leiddi liðið til sigurs á Íslandsmótinu,“ segir meðal annars í tilkynningu Valsmanna.
Elísa á að baki 125 leiki í efstu deild með Val og ÍBV þar sem hún hefur skorað fimm mörk. Þá á hún að baki 43 A-landsleiki fyrir Ísland.