Knattspyrnumaðurinn Hörður Ingi Gunnarsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við norska B-deildarliðið Sogndal. Hörður Ingi kemur frá uppeldisfélagi sínu FH þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil.
„Ég hef bara heyrt mjög jákvæða hluti um félagið. Ég veit að þetta er gott félag í Noregi og að það á sér góða sögu.
Ég talaði við nokkra mismunandi leikmenn sem hafa spilað hér áður og við leikmenn sem þekkja félagið betur en ég. Þeir höfðu bara jákvæða hluti að segja mér,“ sagði hann í samtali við heimasíðu Sogndal.
Hörður Ingi er 23 ára gamall og spilar í báðum bakvarðarstöðum. Hann hefur auk FH spilað með ÍA, Víkingi Ólafsvík og HK hér á landi.
Hann á einn A-landsleik að baki fyrir Íslands hönd og hefur spilað 29 leiki fyrir yngri landsliðin, þar af 18 fyrir U21-árs landsliðið.