Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu um árabil, hefur lagt fótboltaskóna á hilluna en hann skýrði frá því í dag.
Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football og Ragnar staðfesti við fótbolta.net.
Ragnar var í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu á árunum 2012 til 2020 þar sem hann lék nær alla mótsleiki þess, og var í byrjunarliði í öllum leikjum Íslands í lokakeppni EM 2016 og HM 2018. Hann skoraði jöfnunarmark Íslands í sigurleiknum fræga gegn Englandi í Nice í sextán liða úrslitum EM 2016.
Ragnar kveður sem fjórði til fimmti leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi en hann lék 97 landsleiki, þann fyrsta árið 2007 og þann síðasta árið 2020.
Ragnar lék í fimmtán ár sem atvinnumaður. Eftir að hafa leikið í þrjú ár með meistaraflokki Fylkis fór hann til Gautaborgar í Svíþjóð þar sem hann varð sænskur meistari og bikarmeistari, og þaðan til FC Köbenhavn í Danmörku þar sem hann varð danskur meistari og bikarmeistari.
Frá 2014 lék Ragnar með Krasnodar í Rússlandi, Fulham á Englandi, Rubin Kazan og Rostov í Rússlandi, aftur með FC Köbenhavn og loks með Rukh Lviv í Úkraínu. Hann sneri heim síðasta sumar og lék með Fylki seinni hluta tímabilsins. Samtals lék Ragnar 380 deildaleiki á ferlinum.