Knattspyrnukonan Chyanne Dennis er gengin til liðs við Aftureldingu og mun leika með liðinu í efstu deild kvenna í sumar. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í gær.
Chyanne, sem er 22 ára gömul, skrifaði undir samning sem gildir út tímabilið en hún á að baki fjóra A-landsleiki fyrir Jamaíka.
Varnarmaðurinn kemur til félagsins frá háskólaliði South Florida Bulls þar sem hún var í lykilhlutverki.
„Við erum ótrúlega spennt fyrir komu Chyanne en von er á henni til Íslands að loknu landsliðsverkefni með Jamaíka í febrúar,“ segir í tilkynningu Aftureldingar.
„Við erum fullviss að hæð, styrkur og hæfileikar Chyanne muni hjálpa liðinu í baráttunni sem framundan er í efstu deild kvenna,“ segir ennfremur í tilkynningunni.