Knattspyrnumaðurinn Alexander Helgi Sigurðarson mun ekki spila með Breiðablik í efstu deild í sumar. Þetta staðfesti Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við fótbolta.net.
Alexander, sem er 25 ára gamall, var í lykilhlutverki með Breiðabliki síðasta sumar þegar liðið endaði í öðru sæti deildarinnar.
Hann lék 19 leiki í úrvalsdeildinni síðasta sumar en alls á hann að baki 51 leik með Blikum í efstu deild þar sem hann hefur skorað fimm mörk.
Miðjumaðurinn stundar nám í Svíþjóð og mun spila með Vasalund í sænsku C-deildinni á komandi keppnistímabili.
„Hann er farinn til Svíþjóðar og er að fara spila með Vasalund með fram námi,“ sagði Óskar í samtali við fótbolta.net.
„Það er pottþétt að hann mun ekki spila með okkur í sumar,“ bætti Óskar við.