Jóhannes aðstoðarþjálfari landsliðsins

Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Jóhannes Karl Guðjónsson er hættur störfum sem þjálfari knattspyrnuliðs ÍA og hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla í stað Eiðs Smára Guðjohnsens.

KSÍ tilkynnti þetta í dag og fram kom að Jóhannes hefði þegar tekið til starfa. Jóhannes Karl hefur þjálfað Skagamenn frá 2018 en hann hóf þjálfaraferilinn með HK, fyrst sem aðstoðarþjálfari og síðan sem aðalþjálfari Kópavogsliðsins. 

Jóhannes Karl er 41 árs gamall og var lengi atvinnumaður í Belgíu, Hollandi, á Spáni og Englandi og lék 34 landsleiki fyrir Íslands hönd.

Skagamenn þurfa nú að finna nýjan þjálfara en á Twittersíðu ÍA segir að markmið félagsins sé að leysa úr stöðunni á farsælan hátt þannig að félagið komi öflugt til leiks á komandi Íslandsmóti.

Jóhannes verður sem sagt hægri hönd Arnars Þórs Viðarssonar landsliðsþjálfara en fyrsta verkefni þeirra saman með landsliðið er í lok mars þegar Ísland mætir Finnlandi og Spáni í vináttulandsleikjum sem báðir fara fram á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert