Finnur kominn til FH-inga

Finnur Orri Margeirsson í búningi FH í dag.
Finnur Orri Margeirsson í búningi FH í dag. mbl.is/Gunnar Egill

Miðjumaðurinn reyndi Finnur Orri Margeirsson er genginn til liðs við FH-inga en hann er kynntur til sögunnar hjá knattspyrnudeild FH á fréttamannafundi í Kaplakrika sem er að hefjast. Hann samdi við félagið til tveggja ára, eða til loka tímabilsins 2023.

Finnur Orri, sem verður 31 árs í mars, kemur til FH-inga frá Breiðabliki en hann lék 18 af 22 leikjum Kópavogsliðsins í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, aðeins þó fimm þeirra í byrjunarliði.

Hann er í þriðja  til fjórða sæti yfir leikjahæstu leikmenn Breiðabliks í úrvalsdeildinni frá upphafi með 158 leiki og var í liðinu sem varð bikarmeistari árið 2009 og Íslandsmeistari 2010.

Finnur Orri Margeirsson, fyrir miðju, tekur við silfurverðlaunum Íslandsmótsins með …
Finnur Orri Margeirsson, fyrir miðju, tekur við silfurverðlaunum Íslandsmótsins með Breiðablik í lok síðasta tímabils. Honum á hægri hönd er bróðir hans, Viktor Örn Margeirsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Finnur lék með meistaraflokki Breiðabliks frá 2008 til 2014 en spilaði tímabilið 2015 með Lilleström í norsku úrvalsdeildinni þar sem hann lék 27 af 30 leikjum liðsins.

Eftir heimkomuna gekk hann til liðs við KR og lék með Vesturbæjarliðinu frá 2016 til 2020 og varð Íslandsmeistari með því árið 2019. Finnur lék 89 úrvalsdeildarleiki með KR og skoraði eitt mark árið 2018, sem er hans eina deildarmark á ferlinum. Hann sneri síðan aftur til Breiðabliks fyrir síðasta tímabil.

Samtals hefur Finnur spilað 247 leiki í deildinni á Íslandi og er orðinn fjórtándi leikjahæsti leikmaður hennar frá upphafi. Hann spilaði á sínum tíma 28 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Heiðar Máni Hermannsson í markmannsbúningi FH í dag.
Heiðar Máni Hermannsson í markmannsbúningi FH í dag. mbl.is/Gunnar Egill

Um leið kynntu FH-ingar að þeir hefðu fengið í sinn hóp Heiðar Mána Hermannsson, 16 ára gamlan markvörð úr Fylki, sem var í hópi Fylkismanna í tveimur leikjum í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Hann skrifaði undir þriggja ára samning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka