Jón Þór Hauksson var í kvöld ráðinn þjálfari knattspyrnuliðs ÍA. Hann tekur við liðinu af Jóhannesi Karli Guðjónssyni og mun stýra því næstu þrjú árin.
„Ég vil byrja á því að þakka Vestra fyrir sýndan skilning og að gefa mér kost á að taka við mínu uppeldisfélagi. ÍA er félag sem allir vilja leiða og ég er stoltur af því að stjórn félagsins leitaði til mín,“ sagði Jón Þór en Vestri leyfði honum að taka við ÍA þrátt fyrir að vera enn á samningi.
„Framtíð knattspyrnunnar á Akranesi er björt, margar stjörnur íslenskrar knattspyrnu koma frá Akranesi og efniviðurinn er góður. Ég tek við öflugum og vel þjálfuðum leikmannahópi. Mér til aðstoðar hjá félaginu er til staðar teymi reynslumikilla og vel menntaðra þjálfara og ég hlakka til samstarfsins. Mitt fyrsta verk verður að hitta samstarfsfólk og leikmannahópinn til að kynna mínar áherslur," sagði Jón Þór í tilkynningu frá ÍA.