Knattspyrnudeild ÍA hefur fengið leyfi til að ræða við Jón Þór Hauksson, þjálfara Vestra, um að taka við þjálfun karlaliðsins af Jóhannesi Karli Guðjónssyni.
Jóhannes var ráðinn aðstoðarþjálfari karlalandsiðsins í síðustu viku og sagði starfi sínu lausu hjá ÍA í kjölfarið.
Eggert Ingólfur Herbertsson, formaður ÍA, staðfesti tíðindin við 433.is í dag. Jón Þór stýrði ÍA síðari hluta sumarsins 2017, áður en hann varð aðstoðarþjálfari Stjörnunnar og loks landsliðsþjálfari kvennaliðs Íslands.
Jón Þór tók við Vestra síðasta sumar og fór með liðið alla leið í undanúrslit bikarkeppninnar og hafnaði í fimmta sæti 1. deildarinnar. Jón Þór er Skagamaður að upplagi og er hann og fjölskylda hans búsett á Akranesi.